74 birtingar á þremur dögum í Geirlandsá

Það er allsvakalegur gangur í Geirlandsá þessa dagana og hefur 74 birtingum verið landað þar á þremur dögum.
Kannski ekki skrýtið þar sem saman fara stórar göngur af sjóbirtingi og hver lægðin á fætur annarri sem ganga yfirGeirlandsá svæðið með tilheyrandi roki og rigningu.
Holl sem var við veiðar 18.-20. sept fékk 32 fiska en missti samt úr vakt vegna vatnavaxta.
Stærstur var 84 cm sjóbirtingshængur sem veiddist á fluguna Frigga í Ármótunum.
Það var Benedikt Guðmundsson sem landaði fisknum eftir snarpa baráttu.
Höfðingjanum var sleppt aftur eftir atganginn.

Hollið sem tók svo við af þeim var búið að landa 42 birtingum eftir tvær vaktir og missa helling.
Langmest er af 4-6 punda fiski og stærst 10 pund.
20 fiskum var landað í Ármótunum,  8 fiskum í Kleifarnefi, 4 í Höfðabólshyl, Búrhyl, Fernishyl, Rafstöðvarstreng, Mörtungu, Skóghyl og Eyjahyl svo eitthvað sé nefnt.
Kafavatn hefur verið á svæðinu og erfitt að komast um ána vegna þess.
Vatn er farið að síga aðeins og komust menn um mest alla á í morgun.

Ekkert lát verður á vatnsveðri í framhaldinu og eru rigningar í kortunum eins langt og spár ná.
Framhaldið ætti því að lofa góðu svo lengi sem rigningunni verði ekki ofaukið en á móti kemur að verði áin óveiðandi sökum vatnavaxta, þá verða drauma aðstæður til veiða þegar vatn fer aftur að síga.
Geirlandsá er dragá og getur hún rokið upp í vatni á einni sex og þá jafnan hratt niður aftur þegar þannig viðrar.
Meðfylgjandi mynd er af Gunnari Óskarssyni með 11 punda fisk sem hann fékk í Geirlandsá um síðustu mánaðarmót.

Share