Geirlandsá

IS GeirlandsaStaðsetning

Geirlandsá á Síðu er staðsett í V-Skaftafellssýslu og er án vafa ein af bestu sjóbirtingsám landsins. Veiðivon er fyrst og fremst mjög vænn sjóbirtingur með þó nokkurri laxveiði og bleikjuvon.

Áin er 22 km löng bergvatnsá og á upptök sín í Geirlandsárbotnum sem er í 500-600 m.h.y.s. upp á vesturhálendi Kaldbaks. Fiskgengi hluti árinnar er um 12 km langur sem nær upp að Hagafossi. Fyrir neðan fossinn rennur áin í hrikalega fögrum gljúfrum sem breikka svo er neðar dregur en þar fer áin að sveigja um gljúfurbotninn og rennur svo um flatlendi þar sem malarbotn er og að lokum á söndum.

 

Leiðarlýsing að húsi

Ekið er sem leið liggur eftir þjóðvegi 1 til Kirkjubæjarklausturs. Beygt er við hringtorgið á Kirkjubæjarklaustri og keyrt inn áfram um 3 km á veg 203 sem er Geirlandsvegur. 

Þar skammt innan við bæinn Geirland er tekin vinstri beygja inn heimreiðina að veiðihúsinu sem er staðsett í skógarlundi undir fjallinu Kylli.

 

Veiðihús

Gott veiðihús er við ána með fjórum tveggja manna herbergjum (kojur), eldhúsi, setustofu, baðherbergi með salerni og sturtu. Útbúið helstu raftækjum ásamt eldavél með bakarofni.

Gasgrill er á staðnum.

Veiðimenn mega koma í veiðihúsið einni klukkustund áður en veiði hefst og skulu rýma húsið klukkan 14 brottfarardag. Veiðimönnum ber að þrífa húsið fyrir brottför og fjarlægja rusl.

Veiðimenn leggja sjálfir til sængur, sængurfatnað, tuskur og viskustykki.

Öll aðstaða við Geirlandsá er góð og hvetjum við fólk til þess að nýta sér þann möguleika að kaupa veiðileyfi á sumartímanum gegn vægu gjaldi og njóta hússins og útiverunnar.

 

Veiðitilhögun

Veiðitíminn er frá 20.júní til 18.október og auk þess vorveiði

(sjóbirtingur) sem hefst 1.apríl ef aðstæður leyfa.

Útseld veiðitímabil í vorveiði er annars vegar tveir dagar með skiptingu á miðjum degi frá 1. apríl til 31. maí og hins vegar vikudvöl frá miðvikudegi til miðvikudags á tímabilinu 31. maí til 14. júní.

Í sumarveiði frá 18. júní til 5. ágúst eru seldir 3 dagar saman með skiptingu á miðjum degi. (hálfur, heill, heill, hálfur dagur)

Í haustveiði sem er tíminn frá 5. ágúst til 18. okt. eru seldir tveir dagar saman með skiptingu á miðjum degi.

Veitt er með fjórum stöngum allan veiðitímann.

 

Leyfilegt er að veiða alla ána frá efsta veiðistað sem er Hagafoss og niður á neðsta stað sem er neðsti Garður fyrir neðan þjóðvegabrúna.

Heimilt er að tveir menn deili með sér einni stöng og skulu þeir fylgjast að við veiðar í ánni.

Í haustveiði er leyfilegt að veiða á flugu, maðk og spón.

ATH. Í vorveiði er eingöngu leyft að veiða á flugu og spón.

Mönnum er frjálst að veiða og sleppa en mælst er til þess að niðurgöngufiski(hrygningarfiski) sé sleppt á vorin.

Daglegur veiðitími:
1. apríl til 1. maí frá kl 7-13 og 15-21
1. maí til 14. ágúst frá kl 7-13 og 16-22
14. ágúst til 18. okt frá kl 7-13 og 15-21

Seld eru leyfi til 18. október þar sem leyfi fékkst fyrir framlengingu, (10. okt.-18. okt.), síðasta ár, ef einhverra hluta vegna framlenging verði ekki heimiluð verða þau veiðileyfi sem seld eru þann tíma endurgreidd. Einnig er rétt að vekja athygli á því að einnig gæti orðið um veiðitakmarkanir á einhvern hátt að ræða í framlengingu t.d. eingöngu veitt á flugu og jafnvel sleppiskyldu á veiddum fiski.

Share